Nýjast á Local Suðurnes

Tendra ljósin á vinabæjarjólatrénu frá Kristiansand í dag

Mynd: Reykjanesbær

Ómissandi þáttur í jólaundirbúningi í Reykjanesbæ er tendrun ljósanna á vinabæjarjólatrénu frá Kristiansand en þetta er í 56. skipti sem við þiggjum tréð að gjöf frá vinabæ okkar í Noregi.

Athöfnin fer fram á Tjarnargötutorgi laugardaginn 2. desember kl. 17.

Dagskrá:
Tekið verður á móti gestum með lifandi lúðrablæstri nemenda úr blásarasveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar sem leika jólatónlist við tréð. Stutt formleg athöfn fer fram þar sem sendherra Noregs á Íslandi afhendir tréð og fulltrúi Norræna félagsins í Kristiansand flytur kveðju frá bæjarstjóra Kristiansand. Forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar veitir trénu viðtöku og nemandi úr Myllubakkaskóla kveikir ljósin á trénu.

Við tekur dagskrá fyrir börnin en það eru systkini jólasveinanna þau Skjóða og Langleggur sem mæta á svæðið og skemmta börnunum og að lokum slást jólasveinar í hópinn og dansa í kringum jólatréð með tilheyrandi sprelli.

Boðið verður upp á heitt kakó og piparkökur til að halda hita á mannskapnum.