Nýjast á Local Suðurnes

Allur ágóði af leik Keflavíkur og Tindastóls rennur í Minningarsjóð Ölla

Keflavíkingar fá Tindastól í heimsókn í úrslitakeppni Domino’s deildar karla í körfubolta í dag, en þetta er þriðji leikur liðanna í átta liða úrslitunum. Staðan er 2-0 fyrir Keflavík og Keflvíkingar komast í undanúrslitin með sigri.

Körfuknattleiksdeild Keflavíkur hefur ákveðið að allur ágóði af leik liðanna renni í Minningarsjóð Ölla.

Minningarsjóður Ölla var stofnaður til minningar um körfuknattleiksmanninn Örlyg Aron Sturluson og styrkir sjóðurinn börn til íþróttaiðkunar sem ekki eiga kost á því vegna bágrar fjárhagsstöðu foreldra eða umsjónarmanna.

„Börn í Keflavík hafa notið góðs af styrkjum úr Minningarsjóð Ölla og fyrir það erum við afar þakklát og viljum þakka fyrir,“ segir í tilkynningu á fésbókarsíðu körfuboltans í Keflavík.

Örlygur Aron lést af slysförum í ársbyrjun árið 2000.