Nýjast á Local Suðurnes

Körfuboltatímabilið blásið af – Mörg félög lenda í fjárhagsvanda

Stjórn Körfuknattleikssambands Íslands hefur ákveðið að hætta keppni á Íslandsmótinu 2019-20 vegna kórónuveirufaraldursins.

Engir Íslandsmeistarar verða því krýndir þetta tímabil. Stjarnan og Valur eru deildarmeistarar í Domino’s deildum karla og kvenna.

Fjölnir fellur úr Domino’s deild karla og Höttur, efsta lið 1. deildar, tekur sæti þeirra. Þór Ak., sem er í ellefta og næstneðsta sæti Domino’s deildarinnar, heldur því sér uppi.æ

Yfirlýsingu KKÍ í heild sinni má lesa með því að smella hér. Meðal þess sem þar kemur fram er eftirfarandi:

Niðurstaða stjórnar KKÍ við það ástand sem við blasir er því að ekki verður keppt frekar á keppnistímabilinu 2019/2020. Einnig samþykkti stjórn KKÍ eftirfarandi á fundi sínu, miðvikudaginn 18. mars 2020: 

1. Enginn Íslandsmeistari verður krýndur tímabilið 2019/2020. 

2. Sú niðurstaða sem deildarkeppni Domino’s deilda og 1. deilda hefur þegar gefið okkur ræður.

– Fjölnir fellur niður í 1. deild karla.

– Valur er deildarmeistari Domino’s deildar kvenna og Fjölnir deildarmeistari 1. deildar kvenna. 

3. Núverandi stöðutafla er lokastaða Domino’s deilda og 1. deilda tímabilið 2019/2020. Það þýðir að:

– Stjarnan er deildarmeistari Domino’s deildar karla.

– Höttur er deildarmeistari 1. deildar karla og vinnur sér sæti í Domino’s deildinni tímabilið 2020/2021. Engin frekari breyting verður á Domino’s deild karla.

– Grindavík fellur úr Domino’s deild kvenna. Fjölnir er deildarmeistari 1. deildar kvenna og vinnur sér sæti í Domino’s deildinni tímabilið 2020/2021. Engin frekari breyting verður á Domino’s deild kvenna. 

Vegna þeirra aðstæðna sem uppi eru og hafa stuðlað að ótímabærum lokum keppnistímabilsins 2019/2020 má ljóst vera að mörg félög muni lenda í fjárhagsvanda vegna talsverðs tekjumissis. Það sama mun gilda um fjárhag KKÍ. Það verður verðugt verkefni allra hlutaðeigandi að takast á við þann vanda. 

Stjórn og starfsmenn KKÍ vilja að lokum þakka aðildarfélögum sínum innilega fyrir sýnda biðlund og mikinn skilning á við þessar erfiðu aðstæður sem uppi eru. Við óskum ykkur alls hins besta í framhaldinu. Áfram körfubolti.