Hvetja fyrirtæki á Suðurnesjum til að auka stuðning við íþróttafélög
Góður árangur kvennaliðs Keflavíkur og karlaliðs Grindavíkur í körfunni á þessu tímabili hefur vart farið framhjá nokkrum manni, en Keflvíkingar tryggðu sér sem kunnugt er Íslandsmeistaratitilinn á dögunum, auk þess sem bikarmeistaratitillinn kom í hús í febrúar. Þá leika Grindvíkingar oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn í karlaflokki gegn KR-ingum á sunnudag.
Fasteignasalan Stuðlaberg í Reykjanesbæ er dyggur stuðningsaðili Keflavíkur og hvetur eigendur fyrirtækja til þess að auka stuðning sinn við íþróttafélög á svæðinu í auglýsingu á Facebook, enda liggur mikil vinna að baki rekstri íþróttafélaga og róðurinn oft þungur.
“Við höfum ákveðið að auka styrktar framlag okkar til körfuknattleiksdeildar Keflavíkur fyrir öflugt starf og frábæran árangur í vetur bæði hjá karla- og kvennadeildinni. Skorum við á önnur suðurnesja fyrirtæki að gera slíkt hið sama því eins og allir vita liggur gríðarleg vinna dugmikilla einstaklinga að baki þessara deilda.” Segir í auglýsingu Stuðlabergs, sem finna má í heild sinni hér fyrir neðan.