Nýjast á Local Suðurnes

Sandgerðingar gætu fundið fyrir sprengingu á öðrum tímanum í dag

Áhöfnin á varðskipinu Tý og séraðgerðasveit Landhelgisgæslunnar vinna nú að undirbúningi eyðingar á sprengjuhleðslu sem talin er vera úr þýsku tundurskeyti frá seinni heimsstyrjöld og kom í veiðarfæri togara sem var að veiðum úti fyrir Garðskaga í gær.

Tundurskeytið var híft úr togaranum í gærkvöld og dregið með slöngubát hálfan annan kílómetra frá Sandgerðishöfn þar sem því var komið fyrir á 10 metra dýpi. Kafarar Landhelgisgæslunnar hafa verið að störfum í morgun og gert er ráð fyrir að tundurskeytinu verði eytt á öðrum tímanum í dag. Íbúar í Sandgerði gætu fundið fyrir sprengingunni.

Meðfylgjandi mynd frá Landhelgisgæslunni sýnir þegar sprengjuhleðslan var hífð frá borði í gær.