Nýjast á Local Suðurnes

Vinna að umferðaröryggisáætlun

Reykjanesbær vinnur nú að umferðaröryggisáætlun fyrir sveitarfélagið. Markmið áætlunar er að búa til aðgerðaráætlun til að vinna að bættu umferðaröryggi í bænum, fækka slysum og auka lífsgæði bæjarbúa sem og annarra sem ferðast um bæinn.

Mikilvægur grundvöllur fyrir slíka vinnu er kortlagningin varasamra staða og hindrana í gatnakerfinu, segir í tilkynningu. Slíkt er gert meðal annars með kortlagningu slysa innan sveitarfélagsmarka. Kortlagningin hættustaða þarf hins vegar ekki bara að taka mið af því hvar slysin gerast heldur líka taka mið af upplifun vegfarenda á varasömum stöðum og hindrunum í gatna- og stígakerfinu.

Slíkar ábendingar eru mikilvægur grundvöllur fyrir skipulagningu sveitarfélagsins. Með virkri þátttöku vonumst við til þess að auka almennan skilning á vinnu sveitarfélagsins í þágu öryggis sem vonandi leiðir af sér örugga hegðun í umferðinni.

Með tilliti til þess efnir Reykjanesbær til stafræns íbúasamráðs, þar sem íbúum gefst tækifæri á að senda inn ábendingar um hættustaði sem þeir upplifa í umferðinni, ásamt kortlagningu á staðsetningum þeirra, segir einnig í tilkynningunni.

Umferðargáttin verður opin til 1. febrúar næstkomandi.