Nýjast á Local Suðurnes

Leggja til hækkun á sérstökum húsnæðisbótum

Ljósmynd: Reykjanesbær.is / OZZO

Sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjanesbæjar hefur lagt til að sérstakar húsnæðisbætur sveitarfélagsins taki mið af hækkun almennra húsnæðisbóta frá 1. janúar sl. en þá hækkuðu almennar húsnæðisbætur um 13,8%.

Sérstakar húsnæðisbætur hækkuðu til samræmis við hækkun almennra húsnæðisbóta 2022 um 10% til að tryggja að hækkunin skili sér til húsnæðisleigjenda, segir í fundargerð Velferðarráðs.

Viðmiðunarmörk sérstaks húsnæðisstuðnings yrðu þá 751 kr. á hverjar 1000 kr. í greidda húsaleigu frá 1. janúar 2023 og hámark almenns og sérstaks húsnæðisstuðnings samanlagt yrði 75.108 kr.

Velferðarráð mælir með að tillagan verði samþykkt og vísar málinu til bæjarráðs. Lögð er áhersla á mikilvægi hækkunar sérstaks húsnæðisstuðnings til að draga úr áhrifum verðbólgu á lífskjör viðkvæmustu hópa samfélagsins, hún er til þess fallin að styðja við tekjulægstu hópa leigjenda.