Nýjast á Local Suðurnes

Kvartað undan hávaða vegna aukinnar flugumferðar

Flugumferð er að aukast á ný á Keflavíkurflugvelli með ríflega 70 farþegavélum sem koma til landsins um helgar og nokkuð hefur verið um kvartanir vegna hávaðamengunar vegna þessa frá íbúum í nágrenni flugvallarins undanfarið.

Isavia, rekstraraðili Keflavíkurflugvallar, bendir á, í tilkynningu á vef sínum, að með aukinni flugumferð geti myndast ónæði fyrir íbúa í nærsamfélagi flugvallarins. Fyrirtækið hefur þó ýmsar aðferðir til hávaðamildunar þar með talið val um á hvaða flugbrautum tiltekin flugför lendi, segir í tilkynningunni. Jafnframt er tekið fram að fulltrúar fyrirtækisins séu meðvitaðir um að reyna að lágmarka hljóðmengun eins og hægt er og upplýsa nærsamfélagið um hljóðvistina í kringum Keflavíkurflugvöll. Til að mynda hefur fyrirtækið sett upp hljóðstigsvökunarkerfi á Keflavíkurflugvelli og er hægt að nálgast nánari upplýsingar um hljóðmælingarkerfið, senda inn ábendingar og skoða mælingarnar á vef Isavia.

Þá er tekið fram í tilkynningunni að Isavia, Reykjanesbæ, Landhelgisgæslunni og Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja hafi borist nokkrar athugasemdir íbúa vegna hávaðamengunar á undanförnum vikum og þá einkum vegna flugvéla á vegum loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins.