Tveir greindust með berkla á Nesvöllum – Eru ekki smitandi
Nýlega greindist berklasmit á Hrafnistu Nesvöllum í Reykjanesbæ. Frá þeim tíma hefur verið unnið að nánari greiningum tilfella og í dag, 16. mars, var lagt berklapróf fyrir alla starfsmenn heimilisins í kjölfar jákvæðrar svörunar meðal tveggja starfsmanna við berklaprófi í hefðbundinni heilbrigðisskoðun.
Einnig er fyrirhugað að gera berklaprófanir hjá íbúum heimilisins og verða þeir ásamt ættingjum upplýstir um þá framkvæmd og hvenær hún fer fram. Þessir starfsferlar hafa veriðunnir í fullu samráði við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og Göngudeild sóttvarna. Niðurstöður rannsókna sýna að enginn sem rannsakaður hefur verið er smitandi, segir í tilkynningu.
Göngudeild sóttvarna sinnir berklavörnum utan sjúkrahúsa og sér um smitrakningu í samvinnu við staðbundin heilbrigðisyfirvöld vakni grunur um berklasmit. Berklar eru orsakaðir af bakteríu sem er næm fyrir sýklalyfjum. Nokkrum sinnum á ári vaknar grunur um berklasmit hér á landi. Hefst þá rakning á hugsanlegu smiti sem sérstaklega beinist að þeim sem gætu hafa verið í nánum samskiptum við viðkomandi.