Nýjast á Local Suðurnes

Tillögu að deiliskipulagsbreytingum við Hafnargötu 12 hafnað

Umhverfis- og Skipulagsráð Reykjanesbæjar hefur hafnað tillögum Hrífutanga ehf. um breytingar á deiliskipulagi við Hafnargötu 12. Til stóð að byggja fjölbýlishús á lóðinni með 77 íbúðum. Fjöldi athugasemda bars við tillöguna frá íbúum, auk þess sem Minjastofnun sendi inn athugasemdir.

Íbúar gerðu meðal annars athugasemdir við of mikið byggingarmagn, fjölda íbúða, útsýnisskerðingu og stílbrot við umhverfið, svo eitthvað sé nefnt. Minjastofnun telur mikilvægt að endurskoða mótun og umfang nýbygginga á deiliskipulagsreitnum þannig að uppbyggingin taki í meira mæli tillit til mismunandi einkenna, mælikvarða og yfirbragðs sögulegrar byggðar og götumynda í nánasta umhverfi og við aðliggjandi götur.

Umhverfis- og skipulagsráð mun í framhaldinu sjá til þess að gerðir verði fastmótaðir skipulagsskilmálar fyrir lóðina Hafnargata 12 sem taki mið m.a. af athugasemdum sem bárust.