Nýjast á Local Suðurnes

Fjölmennt á íbúafundi – Veittu Umhverfisstofnun misvísandi upplýsingar

Verksmiðja Stakksbergs í Helguvík

Umhverfisstofnun gerði athugasemdir vegna ellefu frávika frá ákvæðum starfsleyfis kísilvers United Silicon í Helguvík og beitti stofnunin fyrirtækið þvingarúrræði vegna frávika í síðustu viku, og meinaði United Silicon að kveikja aftur á ofni, sem hafði verið slökkt á vegna vinnuslyss.

Þetta kom fram í máli fulltrúa Umhverfisstofnunar á íbúafundi sem haldin var vegna ófyrirséðar mengunar frá verksmiðju fyrirtækisins, í Stapa í gærkvöldi. Þá sagði fulltrúi stofnunarinnar skráningar fyrirtækisins ekki hafa verið fullnægjandi auk þess sem upplýsingar sem fulltrúar fyrirtækisins gáfu Umhverfisstofnun hafi verið misvísandi.

Fyrirtækið hefur, að mati stofnunarinnar, gert viðeigandi úrbætur og fengið leyfi til að kveikja aftur á ofninum og var það gert aðfaranótt þriðjudags.

Mikill fjöldi fólks mætti á fundinn, enda hafa á annað hundrað ábendingar og kvartanir borist Umhverfisstofnun og Reykjanesbæ vegna mengunar frá kíslilverinu, frá því það tók til starfa, þar á meðal á annan tug á meðan slökkt var á ofni þess. Á fundinum lýstu nokkrir íbúar yfir áhyggj­um af framtíðinni vegna verksmiðjunnar.

Að pallborðsumræðum loknum voru leyfðar spurningar úr sal og í svörum fulltrúa United Silicon kom meðal annars fram að að ef starfsleyfi fyrirtækisins yrði afturkallað, myndi það sækja rétt sinn fyrir dómstólum. Þá kom fram að engin láglaunastörf yrðu í verksmiðjunni, ef miðað væri við að fyrir láglaunastörf greiddist undir hálfri milljón króna á mánuði.

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, sagði í samtali við mbl.is að aðkoma sveit­ar­fé­lags­ins hafi aðeins verið sú að veita lóð und­ir verk­smiðjuna. Sveit­ar­fé­lagið geti lítið annað gert en beita áhrif­um sín­um til að biðja Um­hverf­is­stofn­un um að halda uppi góðu eft­ir­liti.