Leikmaður Grindavíkur sagði knattspyrnukonu vera heilalausa – “Ég fór yfir strikið”
Grindvíkingurinn Andri Rúnar Bjarnason, markahæsti leikmaður Pepsí-deildarinnar í knattspyrnu, baðst afsökunar á ummælum sem hann lét falla á samskiptamiðlinum Twitter í gær, eftir leik Breiðabliks og Þórs/KA í Pepsi-deild kvenna.
Andri Rúnar gagnrýndi Söndru Maríu Jessen, framherja Þórs/KA, fyrir að „læka“ tíst þar sem gagnrýnt er að markvörður Þórs/KA hafi ekki verið valin í landsliðið heldur hafi markvörður Breiðabliks verið valin. Andri Rúnar sagði knattspyrnukonuna vera heilalausa. Þetta kemur fram á Vísi, en skjáskot af tísti Andra Rúnars má finna hér.
„Frábært hjá Söndru Jessen að læka þetta tweet. Verandi sjálf í hópnum með Sonný. #heilalaus“ skrifaði Andri Rúnar á Twitter.
Andri Rúnar eyddi hinu umdeilda tísti af vegg sínum og baðst afsökunar á athæfinu, þar sem hann sagðist hafa farið yfir strikið með hashtaginu.
Ég fór yfir strikið með hashtaginu. Biðst afsökunar á því.
— Andri Bjarnason (@Andrirunar) July 2, 2017