Nýjast á Local Suðurnes

Reykjanesbær getur ekki tryggt meira af ódýru leiguhúsnæði

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir sveitarfélagið ekki geta tryggt meira af ódýru leiguhúsnæði, eins og fjárhagsstaðan er nú, þrátt fyrir mikinn þrýsting og ákvæði í lögum. Þetta kemur fram í pistli sem bæjarstjórinn birtir á vef sveitarfélagsins og finna má í heild sinni hér fyrir neðan.

Bæjarstjórinn bendir einnig á að sveitarfélagið reki stórt félagslegt kerfi, sem telur um 240 íbúðir og að á svæðinu sé fyrirsjánleg mikil fjölgun nýrra eða uppgerðra íbúða á næstu misserum.

Pistillinn í heild sinni:

Þessi misserin er mikil eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði á Suðurnesjum. Gríðarleg fjölgun íbúa (7,2% í Reykjanesbæ árið 2016) veldur því að samkeppni um laust húsnæði er mikil og nær allt húsnæði, sem fyrir nokkrum misserum stóð tómt, er nú ýmist verið að lagfæra, komið í leigu eða búið að selja. Auk þess hafa fjölmargir ákveðið að bjóða lausar íbúðir til skammtímaleigu fyrir ferðamenn (Airbnb) frekar en að leigja á almennum markaði. Einstaklingar og verktakar hafa keypt húsgrunna og ókláraðar byggingar með það fyrir augum að byggja og gríðarlega mörgum lóðum hefur verið úthlutað til ýmissa aðila, undir fjölbýlishús, raðhús, parhús og einbýlishús. Þar við bætist að framkvæmdir eru hafnar á vegum aðila sem keypt hafa Hlíðahverfi (neðra Nikel-svæði) af Landsbankanum og nýir eigendur fasteigna ríkisins að Ásbrú, sem ekki var áður búið að lagfæra og breyta, eru önnum kafnir við að standsetja þær og koma í not. Það má því með réttu segja að hér á svæðinu sé allt á fullu og mikil fjölgun nýrra eða uppgerðra íbúða væntanleg á næstu misserum.

Á sama tíma berast fregnir af fólki sem af ýmsum ástæðum er að missa leiguhúsnæði þessa dagana og vantar annað húsnæði strax. Nýir eigendur vilja nýta húsnæðið sjálfir, fá hærri leigu, leigja ferðamönnum eða af öðrum ástæðum rifta leigusamningum við núverandi leigjendur. Það er auðvitað grafalvarlegt mál sem mörgum finnst að Reykjanesbær eigi að bregðast við og spyrja því; „Getur Reykjanesbær tryggt meira af ódýru leiguhúsnæði?“ eða „Getur Reykjanesbær átt lausar íbúðir á lager til útleigu í svona ástandi?“

Svarið er því miður; „Nei, Reykjanesbær getur ekki tryggt meira af ódýru leiguhúsnæði eins og fjárhagsstaðan er nú, þrátt fyrir mikinn þrýsting og ákvæði í lögum.“

Stórt félagslegt kerfi

Sveitarfélagið rekur þegar mjög stórt, félagslegt kerfi með um 240 íbúðum. Þær eru annars vegar til afnota fyrir aldraða og hins fyrir fjölskyldur og einstaklinga sem geta ekki séð sér fyrir húsnæði vegna lágra launa eða þungrar framfærslubyrgðar. Kerfið hefur verið rekið með miklum halla frá upphafi en uppsafnaður rekstrarhalli þess nemur nú um 1,6 milljörðum. Á meðan sveitarfélagið er í skuldavanda er því óheimilt, samkvæmt nýsamþykktri aðlögunaráætlun og samningi við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið (áður innanríkisráðuneytið), að auka skuldir sínar hvort heldur er vegna reksturs, framkvæmda eða fasteignakaupa, umfram þau verkefni sem gert er ráð fyrir í fyrrnefndri aðlögunaráætlun. Í henni er t.d. gert ráð fyrir nýjum skóla í Innri-Njarðvík en ekki fjölgun félagslegra íbúða. Aðal áherslan á yfirstandandi kjörtímabili hefur verið lögð á að snúa langvarandi hallarekstri sveitarfélagsins þannig að hann skili rekstrarafgangi og til þess að ná því markmiði þarf áfram að sýna mikið aðhald í útgjöldum.

Sjálfbær húsnæðissjálfseignarstofnun

Annað verkefni þessu tengt er að nú er unnið að því að endurskoða leiguna hjá Fasteignum Reykjanesbæjar svo félagið þurfi ekki frekara meðlag úr bæjarsjóði. Um leið verður félagið gert að svokallaðri húsnæðissjálfseignarstofnun í samræmi við ný lög um almennar íbúðir sem samþykkt voru á Alþingi vorið 2016. Ef vel tekst til með þessa breytingu vinnst tvennt: Í fyrsta lagi munu núverandi skuldir Fasteigna Reykjanesbæjar, sem nema 2,6 milljörðum, færast undan ábyrgð sveitarfélagsins og til þessarar nýju húsnæðissjálfseignarstofnunar, sem fengið hefur nafnið Almennar íbúðir hses. Í öðru lagi mun félagið, takist að gera rekstur þess sjálfbæran með nægum tekjum og aðhaldi í útgjöldum, eiga möguleika á að fjölga ódýrum íbúðum í framtíðinni sem hægt verður að leigja gegn hagstæðri leigu til þeirra sem það kjósa og vilja. Það verða þá nýjar íbúðir sem á eftir að byggja og koma því ekki til ráðstöfunar fyrr en eftir einhver ár.

Eftir stendur húsnæðisvandi allt of margra sem sveitarfélagið getur því miður ekki leyst nema að mjög takmörkuðu leyti og á lengri tíma.

Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri