Mikil skjálftavirkni á Reykjanesi
Mikil jarðskjálftavirkni hefur verið á Reykjaneshryggnum undanfarnar klukkustundir og hafa átján þeirra verið af stærðinni 3 til 3,8 stig. Stærsti skjálftinn var 4,5 að stærð og varð kl. 13:17. Tugir minni skjálfta hafa mælst og halda áfram að mælast.
Veðurstofunni hafa borist tilkynningar um að skjálftarnir hafi fundist á Reykjanesskaga, Höfuðborgarsvæðinu og á Akranesi. Síðast mældust jarðskjálftar af svipaðri stærð á Reykjaneshrygg í júní 2018 og snörp jarðskjálftahrina varð á svipuðum slóðum í júní og júlí 2015 en þá mældist stærsti skjálftinn 5,0 að stærð og sjö skjálftar stærri en 4,0.
Þá hefur verið greint frá því í íbúahópum Suðurnesjamanna á samfélagsmiðlum að skjálftar hafi fundist vel í Keflavík og Njarðvík.