Nýjast á Local Suðurnes

Umferð þyngist um Njarðarbraut – Til skoðunar að setja upp göngubrú

Mynd: Skjáskot/Já.is

Umhverfissvið Reykjanesbæjar hefur haft til skoðunar undanfarin misseri að setja upp göngubrú á Njarðarbraut, til móts við söluturninn Biðskýlið, en mikill fjöldi barna fer þar um á skólatíma. Umferð hefur aukist mikið um Njarðarbrautina á undanförnum mánuðum, í takt við mikla fólksfjölgun í Reykjanesbæ, og fara tæplega 15.000 bílar um götuna á sólarhring.

Þetta kemur fram í svari Guðlaugs Helga Sigurjónssonar, framkvæmdastjóra sviðsins, í umræðum í lokuðum hópi íbúa Reykjanesbæjar á Facebook, en í hópnum hefur farið fram umræða um hættuna sem þarna getur skapast, með auknum fjölda barna og aukinni umferð.