Nýjast á Local Suðurnes

Biggi lögga ósáttur við akstursbann: “Ætlum við að banna bara fólk í kringum bíla?”

Birgir Örn Guðjónsson, fyrrum lögreglumaður skrifaði opna færslu um akstursbann fornbíla á Ljósanótt á Facebook. Þar segist Birgir ekki vera sammála ákvörðun öryggisnefndar Ljósanætur, varðandi bannið, en að það geti verið mjög erfitt að finna meðalveginn og reyna að tryggja öryggi íbúa ásættanlega án þess að skerða frelsið of mikið.

„Það er kannski ekkert stórmál að banna einhverjum fornbílum að aka árlegan hátíðarakstur. Eða jú. Kannski er það stórmál í stóru myndinni. Myndinni sem stöðugt er verið er að mála af samfélaginu. Myndinni sem tekur sífelldum breytingum og er alltaf að þróast. Þetta er í raun enn ein óverðskulduð pensilstrokan sem hryðjuverkamenn fá að mála á strigann. Strigann okkar.“ Segir Birgir, sem áður var þekktur undir viðurnefninu Biggi lögga, meðal annars í færslunni, sem finna má í heild sinni hér fyrir neðan.

Þá varpar Birgir fram nokkrum spurningum í færslu sinni, meðal annars þeirri hvort rétt sé að banna fólk í kringum bíla. “Hversu langt ætlum við nú að ganga til að vernda okkur frá því að einhver noti bíl sem morðvopn á fjölförnum stöðum. Ætlum við að búast við því að allir ökumenn séu hugsanlega morðingjar? Ætlum við að loka götum, banna akstur eða banna bara fólk í kringum bíla? Hvað næst?“