Nýjast á Local Suðurnes

Jón Oddur keppir í SwissMan Xtreme þríþrautarkeppninni í dag

Jón Oddur Guðmundsson þríþrautarmaður er mættur til Sviss þar sem hann tekur þátt í SwissMan Xtreme Triathlon, þar mun hann etja kappi við marga af bestu þríþrautarköppum heims.

Fyrir þá sem ekki vita þá samanstendur þríþraut eða “járnkarl”, eins og íþróttin er oft nefnd hér á landi af sundi, hjólreiðum og hlaupi, þar sem byrjað er á að synda 3,8 km. þá eru hjólaðir 180 km. og í lokin er hlaupið 42 km.

swissman triathlon jon oddur kort

Leiðin sem Jón Oddur þarf að synda, hjóla og hlaupa er um 225 km.

Keppendur hefja leik í Svissnesku borginni  Brissago þar sem byrjað er á að synda 3,8 km. yfir til Ascona, þar taka við 180 km. hjólreiðar til Brienz. Að lokum er svo hlaupið maraþon, 42 km. til Kleine Scheidegg sem er fjallaþorp sem liggur í um 2060 metra hæð yfir sjávarmáli.

SwissMan Xtreme Triathlon er frábrugðin mörgum öðrum þríþrautarkeppnum að því leitinu til að ekki er lokað fyrir umferð á þeim leiðum sem keppt er á og þurfa keppendur því að fylgja almennum umferðarreglum s.s. stöðva á rauðu ljósi eða stöðvunarskyldu ef svo ber undir. Auk þess þurfa keppendur að treysta mjög á aðstoðarmenn sína þar sem mótshaldarar veita takmarkaða aðstoð á meðan á keppni stendur.

jon oddur æfing

Undirbúningur fyrir keppnina hefur staðið í langan tíma.

Jón Oddur hefur keppni á laugardagsmorgun. Þegar LS náði tali af honum var hann nýbúinn að fá veðurspánna fyrir laugardaginn í hendur og var hún ekki til þess fallin að gera keppnina auðveldari, “Það er spáð rigningu á láglendi og snjókomu í fjöllum, þannig að þetta verður erfitt, en svolítið íslenskar aðstæður sem er fínt,” sagði Jón Oddur.

Hægt er að fylgjast með gengi Jóns í keppninni hér, hann er keppandi númer 85.

 

jon oddur þríþrautarmður rnb2014

Jón Oddur var valinn þríþrautarmaður UMFN og Reykjanesbæjar 2014