Nýjast á Local Suðurnes

Samgönguáætlun samþykkt – 300 milljónir króna í bráðaaðgerðir á Suðurnesjum

Alþingi hefur samþykkt samgönguáætlun til næstu fjögurra ára og þar með að veita 300 milljónum króna í bráðaaðgerðir sem fela í sér gerð tveggja hringtorga við gatnamót á Reykjanesbraut, við Aðalgötu og við Flugvallarveg auk endurbóta á Hafnavegi. Veittar verða 200 milljónir króna í gerð hringtorganna á árinu 2017 og á árinu 2018 verða veittar 100 milljónir króna til endurbóta á Hafnavegi.

Samgönguáætlunin var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Í nefndaráliti Samgöngunefndar er Stopp – hingað og ekki lengra hópsins sérstaklega getið, en samtökin voru stofnuð í sumar og hafa barist fyrir tvöföldun Reykjanesbrautar.

 “Í kjölfar banaslyss á Reykjanesbraut í júlí 2016 voru stofnuð samtök íbúa á svæðinu sem kalla sig Stopp – hingað og ekki lengra og berjast þau fyrir umbótum á veginum. Langtíma­markmið samtakanna er að lokið verði við tvöföldun Reykjanesbrautar alla leið að Leifsstöð…” Segir í nefndarálitinu.