Nýjast á Local Suðurnes

Hópbílar og Kynnisferðir sjá um strætóakstur

Stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS) hefur gert sammninga við Hópbíla og dótturfyrirtæki Kynnisferða, Hópbílar Kynnisferða (HBK,)  um þjónustu á strætóleiðum 89 og 55. Gengið var til samninga við fyrirtækin eftir útboð sem haldið var í kjölfar þess að hópferðafyrirtækið SBK (nú ABK) sagði upp samningi um þjónustu á leiðunum tveimur í október síðastliðnum.

Hópbílar buðu lægst í akstur á leið 55, sem gengur á milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarsvæðisins og er samningsupphæðin tæpar 150 milljónir króna samkvæmt heimildum Suðurnes.net. HBK buðu lægst í akstur á leið 89, sem gengur á milli Reykjanesbæjar og Sandgerðis og Garðs. Tilboð fyrirtækisins hljóðaði upp á rúmar 32 milljónir króna samkvæmt heimildum Suðurnes.net.

Þá herma heimildir Suðurnes.net að HBK hafi boðið í akstur á báðum leiðum, en Kynnisferðir, móðurfélag HBK er eigandi ABK (áður SBK,) sem sagði upp samningi um akstur á leiðunum tveimur í október síðastliðnum. Berglind Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri SSS, staðfesti í svari við fyrirspurn Suðurnes.net á dögunum að SSS myndi að öllum líkindum leita réttar síns og reyna að sækja skaðabætur til ABK (SBK) vegna uppsagnar samningsins.

Auk Hópbíla og HBK buðu Suðurnesjafyrirtækin Hópferðir Sævars og Crew ehf. einnig í akstur á umræddum leiðum.

Framkvæmdastjóri SSS sagði í svari við fyrirspurn Suðurnes.net að SBK/ABK ehf. muni sjá um akstur þangað til nýr akstursaðili tekur við þann 8.janúar næstkomandi.  Allt leiðarkerfi og tímatöflur verða óbreyttar, Strætó b.s. mun sjá um þá þætti sem þeir sáu um áður, einu breytingarnar verða því nýir vagnar og aðrir bílstjórar.