Nýjast á Local Suðurnes

Gagnólík erindi fengu ólíka afgreiðslu

Ljósmynd: Reykjanesbær.is / OZZO

Margrét Þórarinsdóttir, bæjarfulltrúi Umbótar í Reykjanesbæ, lagði fram bókun á bæjarráðsfundi þann 29. júní síðastliðinn varðandi mismunandi afgreiðslu á umsóknum um breytingar á lóðamörkum lóða við sömu götu. Margrét taldi að um sambærileg mál væri að ræða, en skipulagsfulltrúi sveitarfélagsins er á öðru máli. Bókun hennar og svar skipulagsfulltrúa má sjá hér fyrir neðan.

„Umbót vil árétta að ávallt þarf að gæta jafnræðis, hlutlægni og tryggja að allir sitji við sama borð. Ljóst þykir að breytingar hafa átt sér stað á lóðarmörkum á einni lóð í andstöðu við vilja Reykjaneshafnar sem er lóðareigandi og án samráðs. Hver heimilaði þá breytingu? Umbót óskar eftir skriflegu svari. Ekki er annað séð en að þarna sé um sambærilegt mál að ræða og ætti því að fá sambærilega meðferð þegar fyrirtæki eru að óska eftir lóðabreytingum.“

Gunnar Kr. Ottósson skipulagsfulltrúi svaraði bókuninni í skriflegu svari 29. ágúst 2023:

„Varðandi breytinguna á Fitjabraut 5-7 þá heimilaði umhverfis- og skipulagsráð þá breytingu sem var staðfest af bæjarstjórn í samræmi við skipulagslög. Hafnarstjórn samþykkti að gengið væri frá lóðarleigusamningi um þá lóð en hafði fulla heimild til þess að krefjast endurskoðunar á ákvörðun bæjarstjórnar, sem hún gerði ekki. Andstaðan er því ekki meiri en það. Varðandi Fitjabraut 3 og lóðarstækkun, þá var því erindi frestað á meðan Samráðsnefnd um þróun hafnarsvæða er með svæðið í vinnslu. Enginn rökstuðningur fylgdi umsókn um lóðarstækkun Fitjabrautar 3, vísað var til áhuga mögulegra leigjenda en engin lýsing á rýmisþörf eða áætlun um uppbyggingu fylgdu umsókn. Með umsókn um lóðarstækkun Fitjabrautar 5-7 fylgdu áætlanir um uppbyggingu á um 7000 m2 byggingu undir verslun og þjónustu ásamt því að losa um lóðina Víkurbraut 14 sem er um 8400 m2 lóð sem þróuð yrði undir íbúðir og verslun. Með umsókn um lóðarstækkun Fitjabrautar 3 fylgdu engin áform. Gagnólík erindi fengu því ólíka afgreiðslu.“