Skólum verður lokað vegna kaldavatnsleysis – Kennsla hefst klukkan 10

Engin kennsla verður í Grunnskólunum í Keflavík, Njarðvík og Sandgerði á fimmtudagsmorgun, á þeim tíma sem lokað verður fyrir kalt vatn á þessum svæðum. Það eru tilmæli frá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja að kennsla verði felld niður á þessum tíma.
Lokað verður fyrir kalt vatn vegna færslu á stofnlögn í tengslum við framkvæmdir á Reykjanesbraut. Kennsla mun hefjast í skólunum þegar vatni verður hleypt á klukkan 10:00, eða fyrr ef vatn verður komið á fyrir þann tíma. Foreldrum er bent á að fylgjast með tilkynningum varðandi þetta á heima- eða Facebooksíðum skólanna og á Mentor.
Uppfært kl. 14.21
Samkvæmt tilkynningu frá Reykjanesbæ verða leikskólar í Reykjanesbæ einnig lokaðir, að undanskildum skólum í Ásbrúarhverfi, til kl. 10:00 fimmtudagsmorguninn 13. október.