Nýjast á Local Suðurnes

Um 350.000 manns “líka við” morgunmatinn á Diamond Suites

Hátt í 350.000 manns hafa skellt “like-i” á ljósmynd sem glaumgosinn og pókerspilarinn Dan Bilzerian birti af morgunverðarborði Diamond Suites á Instagram-síðu sinni á dögunum, en kappinn er afar vinsæll á samfélagsmiðlunum enda á hann það til að taka upp á ótrúlegustu hlutum og deila með fylgjendum sínum.

Þá hafa vel á fjórða þúsund manns skrifað ummæli við myndina og þó fæst þeirra snúi að morgunmatnum er þó nokkur fjöldi sem hrósar bæði matnum og matarstellinu sem í boði er á þessu dýrasta hóteli landsins. Nokkrir Íslendingar hafa skrifað ummæli við myndina, hvar skorað var á glaumgosann að bragða á séríslenskum mat, eins og hákarli og hrútspungum, engum sögum fer þó af því hvort kappinn hafi tekið þeim áskorunum.

Nóttin á Diamond Suites kostar rétt um eina milljón króna og eyddi Bilzerian að minnsta kosti einni nótt á hótelinu.

Instagram reikningur Dan er verulega vinsæll um allan heim enda er hann mikið fyrir það að deila myndum af sjálfum sér og hálfnöktu kvenfólki að njóta góða lífsins.