Nýjast á Local Suðurnes

Firnasterkar gamlar kempur mæta til leiks á firmamóti Njarðvíkur

Það verður mikið álag á körfunum í íþróttahúsi Njarðvíkur og án efa mikið um hörkuflott tilþrif þegar fjöldi fyrrum Íslands-, bikar- og deildarmeistara mæta til leiks á firmamóti Körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur, sem fram fer þann 26. maí næstkomandi, en fjölmargir fyrrum leikmenn sigursælla liða Njarðvíkur hafa boðað þátttöku á mótinu.

Stór nöfn úr körfuknattleiksheiminum hafa þegar skráð lið til leiks, en þar má nefna menn eins og Friðrik Ragnarsson, Hreiðar Hreiðarsson og Ásgeir Snæ Guðbjartsson, en Suðurnes.net hefur heimildir, sem tæplega er hægt að telja öruggar, fyrir því að Ásgeir, sem er lunkinn þjálfari, muni tefla fram gríðarsterku leynivopni, rúmlega tveggja metra varnartrölli, Hirti Guðbjarts., en sá gengur jafnan undir viðurnefninu Troðarinn.

Þá herma sömu heimildir að Snapchat-stjarnan og fyrrum Íslandsmeistari í stangastökki kvenna, Garðar Viðarsson muni mæta galvösk til leiks og sýna það og sanna að mögulegt sé að vinna gull þó að drukkið sé nokkurt magn af Gulli í viku hverri.

Mótið var síðast haldið árið 2013, en þá fór stjörnum prýtt lið Humarsölunnar með sigur af hólmi. Jakob H. Hermannsson, þjálfari Humarsölunnar var þögull sem gröfin þegar blaðamaður óskaði eftir að fá að vita hvort menn þar á bæ myndu reyna að verja titilinn, sem er einn sá eftirsóttasti í körfuboltaheiminum, og veitti engar upplýsingar.

Leikið verður 4 á 4 með 1-2 skiptimenn í 2×8 mínútur og mun sóknin sjá um dómgæsluna. Skráning á mótið hefur gengið vel, en enn eru nokkur pláss laus og rétt að hafa hraðann á hafi menn áhuga á að taka þátt. Nánari upplýsingar um mótið og hvernig skrá skal lið til leiks má finna hér.