Nýjast á Local Suðurnes

Einn á móti fríum námsgögnum – “Ekki eitt af skylduverkefnunum sveitarfélagsins”

Bæjarráð Reykjanesbæjar samþykkti á fundi sínum í morgun að veita grunnskólum Reykjanesbæjar fjárveitingu á næsta skólaári til kaupa á námsgögnum til grunnskólanna. Athygli vakti að einn bæjarfulltrúi greiddi atkvæði gegn tillögunni.

Böðvar Jónsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokks í bæjarráði, greiddi atkvæði gegn tillögunni, en hann telur, í ljósi fjárhagslegrar stöðu Reykjanesbæjar, að nú sé ekki rétti tímapunkturinn til þess að setja verkefnið af stað, enda sé það ekki á fjárhagsáætlun ársins.

“Þetta er ekki eitt af skylduverkefnunum og kannski ekki forgangsatriðum sem sveitarfélagið á að vera að standa í nákvæmlega núna auk þess sem þetta var ekki á fjárhagsáætlun og hefði þá frekar átt að skoða gagnvart næsta ári.” Sagði Böðvar í samtali við Suðurnes.net.