Nýjast á Local Suðurnes

Njarðvík rætt við nokkra aðila um þjálfarastarfið

Knattspyrnudeild Njarðvíkur leitar logandi ljósi að þjálfara fyrir meistaraflokk félagsins eftir að Arnari Hallssyni var sagt upp störfum. Njarðvík hefur rætt við nokkra aðila, samkvæmt fótboltavefnum Fótbolti.net, en þar á bæ hafa menn fylgst vel með þróun mála.

Samkvæmt heimildum miðilsins hefur Njarðvík rætt við Sigurbjörn Hreiðarsson, fyrrum þjálfara Grindavíkur og fyrrum aðstoðarþjálfara Vals og FH, en hann er ekki að fara að taka við liðinu. Þá hefur verið rætt við Bjarna Jóhannsson um að taka við liðinu á ný, en hann hefur staðfest að það muni ekki koma til greina þessu sinni.

Líklegast er talið að samið verði við Gunnar Heiðar Þorvaldsson, að mati fotbolti.net, en hann staðfesti að viðræður væru hafnar, en gat annars lítið sagt að svo stöddu. Gunnar er fyrrum landsliðsmaður en hann hefur verið að stíga sín fyrstu skref í þjálfun síðustu ár. Hann kom KFS upp í 3. deild 2020 og stýrði svo Vestra í Lengjudeildinni í fyrra. Undir hans stjórn endaði Vestri í tíunda sæti Lengjudeildarinnar.

Njarðvík er með átta stig eftir tólf leiki í Lengjudeildinni en liðið ætlaði sér stærri hluti fyrir þessa leiktíð.