Nýjast á Local Suðurnes

Vildu ekki að hluti lendingargjalda við gossvæði rynni til björgunarsveita

þyrluflugfélagð Norðurflug hefur sent frá sér tilkynningu vegna lögbanns sem Sýslumaður hefur lagt á lendingar félagsins við gossvæðið. Félagið undrast viðbrögð landeigenda sem vildu meðal annars ekki að hluti lendingargjalda rynni til björgunarsveita, að beiðni flugfélagsins.

Tilkynning Norðurflugs í heild sinni:

Það urðu okkur hjá Norðurflugi mikil vonbrigði að sýslumaður á Suðurnesjum skyldi leggja lögbann við lendingum þyrlna okkar við gosstöðvarnar í Geldingadölum.

Um nokkur skeið höfum við verið í samningaviðræðum við landeigendur Hrauns, um sanngjarnt gjald fyrir lendingar með farþega í landi þeirra, án árangurs. Þar hefur ágreiningsefnið verið upphæð gjaldsins, en ekki hvort gjald skuli yfirhöfuð vera greitt, sem og að ekkert tillit yrði tekið til hvort yfirhöfuð væri hægt að fljúga vegna veðurs. Vilji okkar til að ganga til samninga hefur samt verið skýr frá upphafi.

Það breytir hins vegar samningsstöðu okkar þegar búið er að leggja á lögbann og við þar með nánast þvinguð til samninga.

Landeigendur hafa því miður farið fram á algerlega óraunhæfa upphæð að okkar mati, og það er erfitt að ná samningum við aðila sem hótar lögbanni verði ekki gengið að kröfum hans, lögbanni sem nú hefur raungerst.

Í viðræðum okkar við landeigendur höfum við kynnt ýmsa möguleika í ljósi þess að engin þjónusta kemur gegn gjaldinu, önnur en leyfi til að lenda á óræktuðu og hingað til ónotuðu landi. Til að mynda viðruðum við þá hugmynd að björgunarsveitir þær sem gættu öryggis ferðamanna, nytu jafnframt góðs af, en fátt var um svör. Hugmyndir landeiganda um gjald er í raun umfram framlegð og því tap af hverri flugferð. Það var auglóslega ekki valkostur að ganga til samninga á þeim forsendum.

Landeigendur hafa sent einu þyrlufélagi ómótuð drög að samningi en ekki Norðurflugi. Eðlilegt væri að landeigendur hefðu mótað gjaldtöku sem tækju mið af þekktum lendingargjöldum og hefðu sent öllum þyrlurekendum slíkt upplegg að samningi. T.d hefði verið sanngirnismál að rukka ekkert fyrir þá íslendinga sem ættu þess ekki kost, sökum fötlunar eða aldurs, að upplifa eldgosið nema með þyrlum eða flugvélum. Slíkt hefði verið sanngirnismál. Það er greinilegt að um stefnubreytingu landeigenda er að ræða, þar sem í upphafi gos, og samhliða kostnaði ríkisins vegna aðgengis, voru gefnar yfirlýsingar um að ekki væri ætlunin að taka gjald fyrir það.

Eldgos kemur sér vel fyrir okkur íslendinga, nú þegar við hefjumst handa við að byggja upp heila atvinnugrein eftir heimsfaraldur, sem skilar sér í aukinni atvinnu og þar með skatttekjum fyrir hið opinbera.

Það er nýlunda að litið sé á eldgos sem viðburð sem landeigandi eigi hlut í. Ekki er gott að sjá hvert slíkt viðhorf leiðir en ljóst að brotið er blað í aðgengi almennings að gosinu. Hvaða náttúrulegi viðburður verður næst forsenda gjaldtöku landeigenda?

Norðurflug hefur um nokkurt skeið íhugað að hætta lendingum við eldgosið, af öryggisástæðum. Lendingarsvæði þar sem útsýni yfir gosið er orðið minna en var, og nokkuð hefur borið á að farþegar okkar, sem margir eru komnir yfir miðjan aldur, hafa upplifað óþægindi þegar farið er út úr þyrlunum. Af þeim ástæðum höfum við velt fyrir okkur að hætta að lenda, líkt og önnur félög hafa nú þegar gert. Lögbannið hefur flýtt þeim áætlunum.