Nýjast á Local Suðurnes

Ungir leikmenn streyma til Keflavíkur

Fimmtán leikmenn hafa gengið til liðs við Inkasso-deildarlið Keflavíkur á síðustu tveimur mánuðum, á sama tímabili í fyrra höfðu Keflvíkingar fengið fimm nýja leikmenn í sínar raðir. Leikmenn á aldrinum 16-20 ára úr nágrannafélögunum Njarðvík og Reyni Sandgerði eru áberandi margir á þessum lista að þessu sinni, en 10 ungir leikmenn hafa skipt yfir í Keflavík frá þessum tveimur félögum.

Þetta er öfug þróun miðið við undanfarin ár, en þá hafa ungir Keflvíkingar skipt yfir í nágrannaliðin og stigið sín fyrstu skref í meistaraflokki í neðri deildunum, enda hafa bæði Njarðvík og Reynir verið þekkt fyrir að gefa ungum leikmönnum tækifæri, en alls hafa 28 leikmenn á aldrinum 15 til 18 ára leikið sinn fyrsta meistaraflokks leik með Njarðvíkingum á Íslandsmótum frá árinu 1998 til 2016, svo dæmi sé tekið.

Hluta ástæðunnar má eflaust einnig rekja til þess að Keflvíkingar vinna um þessar mundir í framtíðarstefnumótun knattspyrnudeildar félagsins til næstu 30 ára, undir stjórn Margrétar Sanders. Hluti af þeirri vinnu var ástæða uppsagnar á samningi Keflavíkur og Njarðvíkur um sameiginlegan rekstur á 2. flokki félagana, en eftir uppsögn samningsins bauðst leikmönnum 2. flokks Njarðvíkur að ganga til liðs við Keflavík.