Nýjast á Local Suðurnes

Keflavík og Njarðvík slíta samstarfi í fótboltanum – Góður árangur undanfarin ár

Sameiginlegt lið Keflavíkur og Njarðvíkur í 2. flokki urðu Íslandsmeistarar árið 2015

Knattspyrnudeildir Keflavíkur og Njarðvíkur hafa slitið samstarfi sem liðin hafa átt í undanfarin þrjú ár með 2. flokk félaganna. Jón Ben., formaður Knattspyrnudeildar Keflavíkur staðfesti þetta í samtali við Suðurnes.net og segir samstarfið ekki hafa gengið sem skildi, þrátt fyrir að árangur sameinaðs liðs hafi verið góður.

“Stjórn Keflavíkur lítur svo á að samstarf beggja félaga hafi ekki gengið sem skildi og hefur því ákveðið að slíta því.” Sagði Jón

Þá mun stjórn Keflavíkur vera að vinna að stefnumótun Knattspyrnudeildar og eru slitin á samstarfinu við Njarðvík hluti af þeirri vinnu, sem leidd verður af Njarðvíkingnum Margréti Sanders, formanni Samtaka verslunar og þjónustu og eiganda ráðgjafafyrirtækisins Strategíu.

“Stjórn keflavíkur hefur hafið undirbúning að stefnumótun Knattspyrnudeildar í heild til næstu 15-20 ára. Og því er þetta liður í þeirri endurskipulagningu. Margrét Sanders Mun leiða það verkefni fyrir hönd stjórnar.” Sagði Jón.

Árangur sameinaðs liðs hefur sem áður segir verið góður undanfarin ár. Keflavík/Njarðvík sendi tvö lið til keppni á Íslandsmótinu og léku þau í sitthvorum riðli og enduðu bæði liðin sem sigurvegarar í sínum riðlum. Þá lék liðið til úrslita í bikarkeppni KSÍ, þar sem það tapaði naumlega. Sameinað lið vann Íslandsmeistaratitilinn árið 2015.