Nýjast á Local Suðurnes

HSS semur við Öryggismiðstöðina – Bæta þjónustu og öryggi á stofnuninni

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) hefur gert samning við Öryggismiðstöðina um að öryggisvörður verði á staðnum öll kvöld og um nætur. Hlutverk hans verður að vakta húsnæðið, gæta öryggis starfsfólks og skjólstæðinga og að hleypa skjólstæðingum HSS inn og afgreiða.

Leita skal til vaktþjónustu lækna ef ekki er um að ræða alvarleg veikindi eða slys utan dagvinnutíma. Vaktþjónusta lækna er á virkum dögum frá kl. 16 til 20, um helgar og helgidaga frá kl. 10 til 13 og aftur kl. 17 til 19.

Vegna slysa- og bráðaveikinda skal líkt og áður hringja í síma 1770 um kvöld, nætur og helgar og helgidaga til þess að meta þjónustuþörf.

Í neyðartilfellum á alltaf að hafa samband við 112.

Þeir sem þurfa á slysa- og bráðaþjónustu að halda, fæðingarþjónustu sem og aðstandendur mikið veikra sjúklinga á legudeild um kvöld, nætur og helgar og helgidaga, eiga að ganga inn um aðalinngang HSS en ekki um sjúkrabílainngang. Við innganginn er bjalla sem fólk ýtir á til að gera öryggisverði viðvart sem hleypir svo viðkomandi inn í biðsal HSS.

Er það von stjórnenda og starfsfólks HSS að þessar breytingar muni mælast vel fyrir, enda er tilgangurinn sá að bæta bæði þjónustu og öryggi á stofnuninni.

Opnunartímar HSS í Reykjanesbæ:

  • Móttakan er opin 08:00 – 20:00 á virkum dögum, aðra daga frá kl 10:00 – 19:00.
  • Tímapantanir alla virka daga frá kl. 08:00-16:00 í síma 422-0500
  • Almenn móttaka lækna, hjúkrunarfræðinga, sálfræðinga og ljósmæðra er alla virka daga frá 08:00 – 16:00. Panta þarf tíma.
  • Vaktþjónusta lækna, utan dagvinnutíma, er frá kl. 16:00 – 20:00 virka daga en um helgar og á helgidögum kl. 10:00 – 13:00 og 17:00 – 19:00.
  • Bráðaþjónusta vegna slysa og alvarlegra veikinda er veitt allan sólarhringinn.