Nýjast á Local Suðurnes

Klúður bílageymslufyrirtækis: “Hver sem er virðist geta gengið inn og fengið lykla afhenta”

Fyrirtæki sem sérhæfir sig í geymslu bifreiða fyrir flugfarþega afhenti aðila bifreið sem ekki var í hans eigu. Eigandi bifreiðarinnar greip því tómt þegar hann hugðist fá bifreiðina afhenta. Bifreiðin var tilkynnt stolin og fannst skömmu síðar á höfuðborgarsvæðinu.

Atvikið náðist á öryggismyndavélar, en þar sást maður fá lyklana afhenta og aka á brott. Eigandi bifreiðarinnar segir að starfsmaður þjónustufyrirtækisins sem um ræðir, Geysis, hafi fullyrt að sá sem fékk bílinn afhentan hafi gefið upp númer bílsins. Starfsmaður fyrirtækisins hafi sagt að fátítt sé að Íslendingar komi til að vitja um bíla og því hafi hann afhent viðkomandi lykla að bílnum þeirra.

„Þetta fór sem betur fer vel, en maður hlýtur að setja alvarleg spurningarmerki við verklag sem er viðhaft þarna. Að hver sem er virðist getað gengið inn og fengið lykla afhenta án þess að gera nokkra grein fyrir því hvort að viðkomandi eigi bílinn eða ekki,“ segir eigandi bifreiðarinnar.

Hún segist hafa heyrt um sams konar dæmi hjá öðrum fyrirtækjum og að hún velti fyrir sér hversu traust og áreiðanleg slík þjónusta sé.

Forsvarsmenn Geysis vildu ekki tjá sig við fréttastofu RÚV, sem greindi frá málinu, þegar eftir því var leitað, að öðru leyti en að málið væri til skoðunar og að mistök hafi verið gerð.