Nýjast á Local Suðurnes

Óska eftir skriflegum rökstuðningi eftir að umsóknum Airport City um lóðir var hafnað

Stjórn Reykjaneshafnar hefur óskað eftir skriflegum rökstuðningi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar á höfnun lóðarumsókna í Helguvík, en fyrirtækið Airport City ehf. sótti um tvær lóðir undir starfsemi gagnavers, Selvík 23 og Hvalvík 14, á iðnaðarsvæðinu í Helguvík.

Umhverfis og skipulagsráð Reykjanesbæjar hafnaði lóðarumsóknum fyrirtækisins, sem er í eigu fyrrverandi framkvæmdastjóra Kadeco, Kjartans Þórs Eiríkssonar og athafnamannsins Sverris Sverrissonar, á fundi sínum þann 12. mars síðastliðinn.

Á síðasta fundi stjórnarinnar þann 27. mars, var samþykkt að óska eftir nánari rökstuðning umhverfis- og skipulagsráðs áður en umsóknin yrði tekin til afgreiðslu, segir í bókun stjórnarinnar, en þar kemur einnig fram að  Guðlaugur H Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Umhverfissviðs hafi farið yfir rökstuðning ráðsins. Lagt er til að óskað verði eftir skriflegum rökstuðning frá umhverfis- og skipulagsráði varðandi höfnun lóðarumsóknarinnar áður en erindið verði tekið til afgreiðslu. Hafnarstjóra var falið að senda ráðinu erindi þar að lútandi.

Uppfært: Tvö fyrirtæki sóttu um lóðir undir gagnaver í Helguvík og var óskað eftir skriflegum rökstuðningi vegna umsókna beggja fyrirtækja. Orðalagi í fréttinni hefur verið breytt með hliðsjón af því.