Nýjast á Local Suðurnes

Dubai og Hong Kong fyrirmyndir að mögulegri flughafnarborg á Keflavíkurflugvelli

Isavia hefur skoðað möguleika á uppbyggingu á starfssvæði flugvallarins, sem kalla mætti flughafnarborg (Airport City), en það er vísun í svæði sem nær til flugvallarins, flugstöðvarinnar, fraktsvæða, skrifstofubygginga, verslunar og þjónustu, sem og hótela. Þar gæti byggst upp starfsemi, bæði flugtengd og óflugtengd, sem sækist eftir því að vera staðsett við alþjóðlegan flugvöll með öflugar flugtengingar.

Slík uppbygging á Keflavíkurflugvelli er, að mati Isavia, raunhæf, en nefna má að framboð á beinu flugi frá Íslandi til Bandaríkjanna og Kanada að sumri til er svipað og samanlagt framboð á öllum stóru alþjóðaflugvöllunum í Skandinavíu.

Þetta kem­ur fram í skýrslu Isa­via og ráðgjafa­fyr­ir­tæk­is­ins Aton þar sem lagt er mat á það hvaða þýðingu upp­bygg­ing Kefla­vík­ur­flug­vall­ar hef­ur til framtíðar. Í skýrslunni kemur fram að skýr stefna í þá átt að nýta flugtengingar til að öðlast samkeppnislega yfirburði getur skilað auknum vöru- og þjónustuviðskiptum, laðað til landsins í auknu mæli erlenda fjárfestingu, fjölgað verðmætum störfum og aukið hagsæld íbúa landsins alls.

Þá er litið til þess að reynsla frá Dubai, Hong Kong og Singapore sýni að litlar þjóðir og lönd geta keppt við stærri lönd og borgir með því að nýta styrkleika í flugvöllum og flugfélögum sem bjóða upp á tengimöguleika og þannig laðað til sín í auknum mæli alþjóðleg fyrirtæki og starfsemi.