Unnið að því að afla upplýsinga um eldra fólk sem býr eitt

Velferðarsvið Reykjanesbæjar mun hefja vinnu við að leita upplýsinga um eldra fólk sem býr eitt og gæti þurft á aðstoð að halda. Þá fellur Fjölþætt heilsuefling niður á meðan á samgöngubanni stendur.
Þetta er á meðal þess sem fram kom á fundi neyðarstjórnar Reykjanesbæjar sem fundar daglega um þessar mundir. Á fundinum kom einnig fram að frekari takmarkanir verða á fjölþættri heilsueflingu 65+/Janusarverkefni, en verkefnið fer í frí á meðan á samgöngubanni stendur og greiðsla þátttakenda fellur niður á þeim tíma. Sama ákvörðun varðandi það verkefni var tekin á fundi neyðarstjórnar Grindavíkurbæjar í dag.
Reykjanesbær hefur takmarkaðan aðgang að upplýsingum um fólk sem býr eitt og gæti þurft á aðstoð að halda og verður unnið að því að safna upplýsingum um þann hóp í samvinnu við Félag eldri borgara og heimahjúkrun HSS.