Nýjast á Local Suðurnes

Einn eigenda Airport Associates í stjórn Play

Einn eigenda flugþjónustufyrirtækisins Airport Associates hefur tekið sæti í stjórn hins nýstofnaða lággjaldaflugfélags Play, sem stefnir á að hefja flug á næstunni.

Þetta kemur fram í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins sem kom út í lok janúar. Þar kemur einnig fram að maðurinn, Elías Skúli Skúlason, hafi tekið sæti í stjórninni fyrir hönd hóps fjárfesta, en ekki er tilgreint nánar hverja er um að ræða.

Samkvæmt viðskiptaáætlun Play mun flugfélagið skipta við Reykjavík FBO varðandi flugþjónustu, en samkvæmt áætluninni bauð það félag þjónustu sína á lægra verði en áður hefur þekkst hér á landi.

Auk þess að vera einn stærsti hluthafi Airport Associates er Elías Skúli einnig framkvæmdastjóri UPS á Íslandi.

Ekki hafa fengist upplýsingar um hvernær flugfélagið hefur flug, en gera má ráð fyrir að það styttist í að það gerist þar sem umsækjendur um störf flugliða hjá félaginu voru á dögunum kallaðir í viðtöl.