Nýjast á Local Suðurnes

Lögregla gagnrýnd fyrir vanvirðandi meðferð á hælisleitanda – “Algerlega óásættanlegt!”

Kristrún Elsa Harðardóttir, lögfræðingur manns sem handtekinn var við millilendingu í Keflavík í nótt, á leið sinni til Bretlands, segir manninn hafa hlotið ómannlega eða vanvirðandi meðferð af hálfu lögreglunnar á Suðurnesjum. Kristrún segir manninn ekkert hafa fengið að borða né drekka í þær 14 klukkustundir sem hann var í haldi Lögreglunnar á Suðurnesjum.

Kristrún segir lögreglu hafa tjáð sér að maðurinn hafi sótt um hæli á Íslandi. Hann væri því ekki lengur handtekinn heldur mál hans komið inn á borð Útlendingastofnunnar. Lögreglan hafi því ekki talið sig þurfa að útvega honum mat, enda mál mannsins ekki lengur á þeirra könnu.

Maðurinn var upphaflega sakaður um að framvísa fölsuðum skilríkjum, það reyndist hins vegar ekki vera raunin. Maðurinn þarf þó að vera hér á landi næstu 2-4 vikurnar á meðan mál hans er til rannsóknar.

„Það þarf að skoða verklagið hjá lögreglunni á Suðurnesjum og viðmót lögreglumanna gagnvart þeirra skjólstæðingum. Það sem ég varð vitni að í dag er algerlega óásættanlegt!“ Segir Kristrún í pistli sem hún ritaði á Facebook og finna má hér fyrir neðan.