Nýjast á Local Suðurnes

Leggja fram tillögur um gjaldtöku á vegum: Tvöföldun Reykjanesbrautar tilbúin til framkvæmda

Nefnd sem skoðar möguleika á gjaldtöku á vegum til og frá höfuðborgarsvæðinu mun leggja fram tillögur í sumarlok sem miða að því hægt verði að hefja framkvæmdir á vegunum í kringum höfuðborgarsvæðið strax á næsta ári.

„Það eru verkefni á öllum þessum leiðum, sem við erum að skoða hér, tilbúin til framkvæmda, svo sem tvöföldun Reykjanesbrautar og kaflar uppi á Kjalarnesi,“ sagði Jón Gunnarson samgönguráðherra í morgunútvarpi Rásar 2. „Ef við náum samstöðu á þinginu í haust er hægt að hefja framkvæmdir á grundvelli þessa strax á næsta ári,“ sagði hann.

Hann benti á að ríkisfjármálaáætlun geri ráð fyrir 10 milljörðum til nýframkvæmda árlega. Kostnaðurinn við framkvæmdirnar á vegunum út frá höfuðborginni sé meiri en hægt verði að fara í þær fyrir fjármagn úr ríkissjóði og því verði að leita leiða til að fá nýtt fjármagn. Gjaldtaka verði til þess að hægt verði að nota fjármagn úr ríkissjóði til að kosta mikilvægar framkvæmdir á landsbyggðinni, svo sem brýnar samgöngubætur á  sunnanverðum Vestfjörðum.