Nýjast á Local Suðurnes

Gera athugasemdir við slaka mætingu nefndarmanna í Umhverfis- og skipulagsnefnd

Slök mæting nefndarmanna meirihlutans í Reykjanesbæ á fundi hjá Umhverfis- og skipulagsráði var gerður að umtalsefni á fundi bæjarstjórnar sveitarfélagsins í gær. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi bókun vegna málsins, en þar kemur fram að tveir af þremur fulltrúum meirihlutans hafi slakt mætingarhlutfall.

„Undirritaðir bæjarfulltrúar vekja athygli á og gera athugasemdir við afar slaka mætingu nefndarmanna meirihlutans hjá Umhverfis- og skipulagsráði. Fyrir utan formann nefndarinnar, sem hefur sinnt sínum verkefnum með ágætum, skipar meirihluti bæjarstjórnar tvo nefndarmenn í Umhverfis- og skipulagsráð. Hefur annar þeirra um 60% mætingarhlutfall á fundi þessa árs en hinn aðeins innan við 15%. Þrátt fyrir slaka mætingu nefndarmanna meirihlutans á fundi heyrir nánast til undarntekninga að varamenn þeirra séu boðaðir í staðinn. Á síðasta fundi nefndarinnar voru aðeins 3 af 5 aðalfulltrúum mættir, þar af vantar tvo fulltrúa meirihlutans á fundinn og enginn varamaður var boðaður.

Umhverfis- og skipulagsráð er ein mikilvægasta fastanefnd sveitarfélagsins og gegnir mjög mikilvægu hlutverki í stjórnsýslunni. Á það ekki síst við á uppbyggingartímum eins og nú er, þegar byggingarframkvæmdir íbúðarhúsnæðis eru í blóma auk framkvæmda við iðnaðarsvæðið í Helguvík, óskir um breytingar á skipulagi eru fjölmargar og vinna við aðal- og deiliskipulag stendur yfir.

Skorað er á meirihlutann að sýna málaflokknum meiri áhuga og tryggja að þeir fulltrúar sem skipaðir eru til að sinna verkefninu geri það, eða boði varamenn sína að öðrum kosti.“