Nýjast á Local Suðurnes

Verð á rútuferðum frá flugstöðinni hefur hríðlækkað – Ódýrast að taka strætó

Myndin tengist fréttinni ekki beint

Ódýrustu miðarnir með rútu frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar til Reykjavíkur hafa lækkað úr 2.990 krónum í 1.950 krónur frá því útboð Isavia á stæðum við flugstöðina fór fram á síðasta ári. Frá þessu er greint á vef Túrista.

Airport Direct, dótturfélag Hópbíla, sem átti hagstæðasta tilboðið í stæðin næst flugstöðinni býður ódýrustu fargjöldin, 1.950 krónur aðra leiðina, en hjá Airport Express lækkaðu fargjöldin í kjölfar verðlækkunar Airport Direct og kostar farið 1.990 krónur. Flugrútan, sem rekin er af Kynnisferðum, heldur í fyrri verðskrá og kostar farmiðinn þar 2.999 krónur. Ódýrasti kosturinn er þó að taka strætó, en þar kostar stök ferð 1.880 krónur.

Allt frá því að akstur hófst samkvæmt skilmálum útboðsins þann 1. mars sl. þá hafa fyrirtækin þrjú haldið úti ferðum í tengslum við allar komur og brottfarir farþegaflugvéla frá Keflavíkurflugvelli. Athugun Túrista í sumar leiddi í ljós að sætanýtingin í ferðir félaganna var mjög misjöfn.