Nýjast á Local Suðurnes

Skrifað undir samstarfssamning um FabLab

Í gær var skrifað undir samning um stofnun FabLab smiðju sem verður staðsett í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og tekur til starfa í haust. Það voru Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sem undirrituðu samninginn ásamt bæjarstjórum sveitarfélaganna fjögurra á Suðurnesjum og forstöðumönnum þeirra mennta- og rannsóknarstofnana á Suðurnesjum sem eiga aðild að smiðjunni.

Skrifað var undir samninginn á sal skólans en þar voru m.a. þingmenn kjördæmisins og sveitarstjórnarmenn viðstaddir. Kristján Ásmundsson skólameistari bauð gesti velkomna og ráðherrarnir Áslaug Arna og Ásmundur Einar fluttu ávörp ásamt Berglindi Kristinsdóttur, framkvæmdastjóra Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum. Að lokinni undirritun samningsins þáðu gestir veitingar í boði skólans og fögnuðu áfanganum.

Hægt er að sjá meira um FabLab smiðjuna í frétt á vef skólans:
https://www.fss.is/is/skolinn-starfid/annad/frettir/saman-stofnum-vid-fab-lab-sudurnesja