Nýjast á Local Suðurnes

Vilja láta rannsaka möguleg tengsl krabbameina og mengunar á Suðurnesjum

Ljósmynd: Reykjanesbær.is / OZZO

Þingsályktunartillöga um að fela heilbrigðisráðherra að gera saming við Krabbameinsfélag Íslands um rannsókn á nýgengi krabbameina á Suðurnesjum samanborið við aðra landshluta hefur verið lögð fram af sjö þingmönnum. Um er að ræða þverpólitíska tillögu þingmanna fjögurra flokka.

Könnuð verður meðal annars tíðni þekktra áhættuþátta krabbameina eftir búsetu auk þess sem skýrslur sem Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf. hefur látið gera varðandi mengun á svæðinu verða teknar til skoðunar. Tekin verður saman heildstæð skýrsla yfir þær gerðir krabbameina sem eru algengari á Suðurnesjum og algengi áhættuþátta sem tengjast þeim meinum, verði tillagan samþykkt. Þá verði styrkur mengandi efna í grunnvatni og jarðvegi borinn saman við lista yfir alþjóðlega viðurkennda krabbameinsvalda.

Ráðherra er gert að skila skýrslu með niðurstöðum fyrir 1. júní 2022.

Þingmennirnir sem lögðu fram tillögurnar eru Birgir Þórarinsson, Ásmundur Friðriksson, Guðrún Hafsteinsdóttir og Vilhjálmur Árnason í Sjálfstæðisflokknum, Oddný G. Harðardóttir úr Samfylkingunni, Guðbrandur Einarsson hjá Viðreisn og Jóhann Friðrik Friðriksson í Framsóknarflokknum.

Í greinargerð með tillögunni segir meðal annars að nýgengi krabbameina, samkvæmt tölum fyrir árin 2009 til 2018, sé hvergi hærra en á Suðurnesjum. Meðal karla er það 595 fyrir hverja 100.000 íbúa en meðal kvenna 483. Á höfuðborgarsvæðinu er það 539 og 478.