Nýjast á Local Suðurnes

Enn óánægja með breytingar á leiðarkerfi strætó – “Reykjanesbær dregur lappirnar”

Lítið hefur gerst í málefnum strætó í Reykjanesbæ eftir að komið var á samráðshóp íbúa og fulltrúa sveitarfélagsins vegna breytinga sem gerðar voru á þjónustu strætó. Töluverð óánægja var á meðal íbúa í Innra hverfi Njarðvíkur með breytingarnar, en íbúar hverfisins telja þjónustuna hafa versnað til muna við breytingarnar.

Málið var tekið upp í bæjarráði og bæjarstjórn eftir kröftug mótmæli íbúa og samráðshópur þeirra og fulltrúa sveitarfélagsins settur á laggirnar. Einn fundur hefur farið fram á milli aðila á þeim mánuðum sem liðnir eru síðan breytingarnar tóku gildi.

Sigvaldi Arnar Lárusson, einn fulltrúa íbúa í hópnum, staðfestir í samtali við Suðurnes.net að einn fundur hafi verið haldinn og að lítið hafi komið fram á honum. Hann segir mikla vinnu hafa verið lagða í málið af fulltrúum íbúa en að ekkert sé að frétta frá Reykjanesbæ, tilfinningin sé sú að  fulltrúar Reykjanesbæjar séu að draga lappirnar og bíða þess að málið gleymist.

Uppfært 7. mars kl. 12: Boðaður hefur verið annar fundur samráðshóps íbúa og fulltrúa Reykjanesbæjar.