Nýjast á Local Suðurnes

Skerðingar á þjónustu og röskun skólastarfi komi til verkfalls

Ýmis þjónusta sveitarfélaganna á Suðurnesjum mun skerðast komi til verkfalls aðildarfélaga BSRB sem boðað er á mánudag og þriðjudag. Mest verða áhrifin í grunn- og leikskólum á Suðurnesjum og eru foreldrar beðnir um að fylgjast með fréttum af samningaviðræðum þar sem skólastarf verður með eðlilegum hætti takist að semja um helgina.

Misjafnlega er brugðist við verkföllum í skólum á Suðurnesjum en í flestum skólum verður skert kennsla. Hádegisverður verður ekki framreiddur þessa daga og frístund verður lokað. Hefðbundin sund- og íþróttakennsla verður ekki þessa daga þar sem verkfall á við starfsmenn íþróttamiðstöðva, íþrótta- og sundkennsla verður þó í boði og munu kennarar sinna kennslu með öðrum hætti en venjulega.

Foreldrar eru beðnir að fylgjast vel með á heimasíðum skólanna og sjá hvernig kennslu verður háttað komi til verkfalls.

Ýmis þjónusta sveitarfélaganna mun einnig skerðast, þannig verða þjónustuver þeirra flestra með takmarkaða mönnun og hafa íbúar Reykjanesbæjar til að mynda verið beðnir um að fresta því að hafa samband til miðvikudags sé þess nokkur kostur. Bæjarskrifstofan í Vogum verður lokuð þessa daga og í Suðurnesjabæ verður skert þjónusta á skrifstofum, takmörkuð símsvörun og takmörkuð úrvinnsla og móttaka erinda.

Nánari upplýsingar um takmörkun á þjónustu sveitarfélaganna má finna á heimasíðum þeirra, Reykjanesbær, Vogar, Grindavík og Suðurnesjabær.

Heimasíður grunnskólanna í Reykjanesbæ:

AkurskóliHeiðarskóliHoltaskóliHáaleitisskóliMyllubakkaskóliNjarðvíkurskóli, Stapaskóli

Heimasíður grunnskólanna í Suðurnesjabæ:

Sandgerdisskoli.is, Gerðaskóli

Heimasíða grunnskólans í Grindavík

Heimasíða grunnskólans í Vogum