Nýjast á Local Suðurnes

Þrýsta á að tvöföldun Reykjanesbrautar verði kláruð – 5.000 skráð sig á Facebook

Á nokkrum klukkustundum hafa um 5.000 manns hafa skráð sig í hóp á samfélágsmiðlinum Facebook, þar sem ætlunin er að þrýsta á að lokið verði við tvöföldun Reykjanesbrautar, frá Mjódd að Leifsstöð, sem fyrst. Hópurinn er settur á laggirnar í kjölfar banaslyss sem varð í gærmorgun við gatnamót Reykjanesbrautar og Hafnarvegar.

Á Facebook-síðunni kemur fram að stefnt sé að því að boða til undirskriftarsöfnunar og halda borgarafund, þar sem meðal annars ráðherrar og þingmenn yrðu boðaðir. Slíkur fundur var haldinn fyrir rúmum 15 árum, ári síðar var fyrsti hluti tvöföldunar boðinn út.

“Upp hefur komið sú hugmynd að boða til undirskriftarsöfnunnar og borgarafundar íbúa á Reykjanesi á nýjan leik, til að endurvekja þrýsting á tvöföldun Reykjanesbrautar. Á þeim fundi verða allir þingmenn Suðurkjördæmis boðaðir, Fjármálaráðherra og Innanríkisráðherra. Síðast þegar íbúar á Reykjanesi beittu þrýstingi þá söfnuðust rúmar 7.000 undirskriftir og það fyrir tíma Facebook. Við þurfum öll sem eitt að sameinast í því verkefni sem við stöndum frammi fyrir. Við sáum samtakamáttinn síðast og sannar það fyrir okkar að við getum haft áhrif ef við sameinumst öll í baráttunni.” Segir á Facebook-síðunni.

Ekki á áætlun að ljúka tvöföldun brautarinnar næstu tvö árin

Ekki verður lokið við að tvöfalda Reykjanesbraut milli Hafnarfjarðar og Hvassahrauns né frá Fitjum að Flugstöð Leifs Eiríkssonar næstu tvö árin hið minnsta, samkvæmt samgönguáætlun 2015-2018 sem samþykkt hefur verið á Alþingi. Einu framkvæmdirnar við Reykjanesbraut samkvæmt áætluninni eru þær að byggð verða mislæg gatnamót á Reykjanesbraut við Krýsuvíkurveg í Hafnarfirði.

Vonir standa þó til þess að mögulegt verði að ljúka framkvæmdum við undirgöng fyrir gangandi vegfarendur með tengingu Ásbrúar við þjónustusvæði við Fitjar á þessu ári, en hugmyndir þess efnis voru kynntar fyrir Umhverfis- og skipulagsráði Reykjanesbæjar á fundi þess í mars síðastliðnum.

Í nefndaráliti frá Umhverfis- og samgöngunefnd alþingis um samgönguáætlunina kom fram að samhliða fyrirhugaðri uppbyggingu á ð Keflavíkurflugvelli þurfi að huga að uppbyggingu nauðsynlegra innviða í nágrenni vallarins, klára tvöföldun Reykjanesbrautar alla leið að flugstöðinni auk annarra vega í kringum svæðið svo umferðarflæði verði greitt og jafnframt gætt að öryggismálum.

“Ekki hægt að búa við þá hættu sem skapast daglega” 

Hafist var handa við tvöföldun brautarinnar árið 2002 og var annar áfangi tvöföldunar opnaður í október árið 2008. Ekkert banaslys hefur orðið á tvöföldum kafla Reykjanesbrautar síðan hann var tekinn í notkun, en árin fyrir tvöföldun voru banaslysin 4-5 árlega. Í umræðum á Facebook-síðunni kemur meðal annars fram að með aukinni umferð sé ástandið orðið óþolandi og ekki boðlegt fyrir íbúa svæðisins.

“Við sáum samtakamáttinn síðast og sannar það fyrir okkar að við getum haft áhrif ef við sameinumst öll í baráttunni. Ekkert banaslys hefur orðið á þeim kafla Reykjanesbrautar sem tvöföldun er lokið. Með aukinni umferð er ástandið orðið óþolandi. Við, íbúar á Reykjanesi, getum ekki lengur búið við þá hættu sem skapast á hverjum degi á Reykjanesbraut.” Segir í umræðum á Facebook-síðunni.