Nýjast á Local Suðurnes

Lækka útsvar í Reykjanesbæ – “Staðið við öll fyrirheit, en þurftum að horfast í augu við árið 2014”

Bæjarstjórn Reykjanesbæjar ákvað á fundi sínum í gær að lækka útsvar og fasteignaskatt í sveitarfélaginu frá og með næstu áramótum.

Frá 1. janúar mun útsvar verða lækkað úr 15,05% í 14,52% eins og meirihluti bæjarstjórnar hafði boðað.  Með því að greiða hærra útsvar hafa íbúar lagt sitt að mörkum til að gera sveitarfélaginu kleift að ná því markmiði að skuldir verði innan lögboðinna marka í lok ársins 2022. Þá hefur einnig verið tekin ákvörðun um að lækka fasteignaskatt úr 0,5% í 0,48% til þess að minnka álögur á íbúa vegna þeirrar hækkunar á fasteignamati sem orðin er.

“Meirihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar lítur svo á að með þessari fjárhagsáætlun sem er sú síðasta á þessu kjörtímabili hafi verið staðið við öll þau fyrirheit sem gefin voru í málefnasamningi núverandi meirihluta. Við erum að horfa fram á bjartari tíma en við þurftum að horfast í augu við árið 2014 og því mikilvægt að halda áfram á þeirri vegferð sem farin hefur verið undangengin ár. Meirihlutinn vill þakka starfsmönnum sveitarfélagsins og öðrum bæjarfulltrúum fyrir samstarfið við gerð þessarar fjárhagsáætlunar.” Segir í bókun meirihluta bæjarstjórnar