Nýjast á Local Suðurnes

Ferðatékkinn nýtist vel á Suðurnesjum – Margt í boði sem kostar ekki krónu!

Reykjanesið hefur upp á afar margt að bjóða þegar kemur að ferðalögum innanlands og ljóst að fimm þúsund króna ferðastyrkur ríkisins vegna Kórónuveirufaraldursins gæti nýst vel á ferðalögum um svæðið, enda margt í boði sem kostar ekki krónu að nýta sér.

Ókeypis verður til að mynda í flest söfn í Reykjanesbæ í sumar, þar má meðal annars nefna Rokksafn Íslands og Duus safnahús þar sem finna má ýmsar forvitnilegar sýningar. Þá hefur Reykjanesið upp á að bjóða margar skemmtilegustu gönguleiðir landsins, sem er að sjálfsögðu ókeypis að nýta sér.

Rúnturinn um svæðið þarf heldur ekki að kosta annan handlegginn en nýtt fyrirtæki, tjaldbilar.is, býður bíla hvar mögulegt er fyrir fólk að gista í á afar góðum verðum um þessar mundir. Vilji fólk hins vegar frekar nýta sér hótel eða gistihús stendur það að sjálfsögðu til boða á afar góðum verðum í sumar, en hér má til að mynda sjá verð á gistingu fyrir fjölskyldu yfir eina helgi í júní sem valin var af handahófi. Fjórir golfvellir eru á Suðurnesjum, í Sandgerði, Vogum, Grindavík og í Leirunni, en mögulegt er, samkvæmt verðskrám, að komast 18 holu hring fyrir svo lítið sem 4.000 krónur. Þá bjóða öll sveitarfélögin á Suðurnesjum upp á fyrsta flokks aðstöðu til sundiðkunar.

Sælkerar þurfa heldur ekki að hafa áhyggjur af verðlagningu á mat og drykk, en flest veitingahús á svæðinu bjóða upp á afar góð tilboð þessi dægrin, auk þess sem svæðið skartar eflaust af flestum sjoppum á landinu, sé miðað við höfðatölu, en flestar bjóða þær upp á fjölskyldutilboð á skyndibita á undir 5.000 krónum.

Hér fyrir neðan má finna áhugaverða tengla, stútfulla af upplýsingum um það sem Reykjanesið hefur upp á að bjóða:

Reykjanesbær

Grindavík

Suðurnesjabær

Vogar

Markaðsstofa Reykjaness