Handtekinn eftir ofsaakstur á Reykjanesbraut
Ökumaður sem lögregla mældi á 203 km hraða á klukkustund var handtekinn á Reykjanesbraut í vikunni. Hámarkshraði á því svæði sem maðurinn var handtekinn er 90 km á klukkustund.
Maðurinn, sem er erlendur, var einnig grunaður um ölvunarakstur, að því er segir í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum. Maðurinn var sviptur ökuréttindum til bráðabirgða og var gert að greiða 420 þúsund krónur í sekt fyrir brot sín.
Tíu ökumenn til viðbótar voru staðnir að hraðakstri.