Nýjast á Local Suðurnes

Vilja breytingar við Greniteig – Hjólhýsi og kerrur taka upp þau fáu stæði sem eru til skiptana

Íbúi við Greniteig í Reykjanesbæ lagði inn erindi til Umhverfis- og skipulagsráðs sveitarfélagsins vegna umferðar og bílastæðamála húsa við götuna. í erindinu kemur fram að húsum fylgja of fá bílastæði miðað við bílaeign, sumum húsum fylgi tvö stæði öðrum eitt og nokkuð er um að hjólhýsum, tjaldvögnum og kerrum sé lagt í götunni og taka upp þau fáu stæði sem eru til skiptana. Einstefnuakstur er í götunni aðeins heimilt að leggja vinstra megin. Í erindinu er þannig lagt til að tvístefna verði tekin upp í götunni, þar sem gatan er löng og fólk styttir sér leiðir gegn einstefnu. Þá er lagt til að heimilt verði að leggja beggja vegna.

Í svari ráðsins kemur fram að Greniteigur sé með þéttbyggðustu götum í Reykjanesbæ og þegar það fer saman með mikilli bílaeign skapar það viss vandamál sem hvílist fyrst og fremst á íbúum götunnar. Að mati ráðsins ættu lítið notuð farartæki ekki að leggja í götu, finna ætti þeim stað innan lóðar eða annarsstaðar. Gatan er of þröng til þess að koma fyrir snúningsplani til þess að heimila einstefnu úr hvorri átt. Óski lóðarhafar eftir því að bæta við bílastæðum á lóðum sínum tæki sveitarfélagið vel í þau erindi.

Akstur gegn einstefnu í götunni hefur áður ratað í fréttir á síðum Suðurnes.net, en söngkonan Leoncie hefur ítrekað bent á að ógætilega væri ekið um götuna og að ekið væri gegn einstefnu í götunni.