Nýjast á Local Suðurnes

Tommi ánægður með áhugann – Mun þó ekki opna Búllu á Suðurnesjum

Á dögunum var stofnaður hópur á Facebook með það í huga að þrýsta á eigendur Hamborgarabúllunar að opna stað í Reykjanesbæ, um 150 manns hafa “líkað” við síðuna.

Athafnamaðurinn Tómas A. Tómasson, betur þekkur sem Tommi í Búllunni, eða á hér Suðurnesjum sem Tommi í Tommahamborgurum, mun þó ekki opna Hamborgarabúllu Tómasar í Reykjanesbæ í bráð, það gæti þó orðið möguleiki síðar. Tómas sagðist í samtali við Suðurnes.net bera sterkar taugar til Suðurnesjasvæðisins enda var fyrsti staðurinn sem hann opnaði staðsettur á Fitjum.

“Það er einfaldlega of mikið að gera við að opna staði erlendis í augnablikinu, það fer öll okkar orka í það,” Sagði Tómas.

Og hann bætti við: “Ég hef heyrt af hópnum á Facebook, og er ánægður með áhugann, enda ber ég sterkar taugar til svæðisins eftir að hafa opnað minn fyrsta stað í Njarðvík á sínum tíma og unnið í Grindavík í fjölda ára.”

Hamborgarbúllan rekur sjö staði á Íslandi auk þess sem tveir staðir eru í London, einn í Kaupmannahöfn og einn í Berlín. En þrátt fyrir þrýstinginn verður einhver bið eftir því að Tommi og félagar opni Búlluna í Reykjanesbæ.