Nýjast á Local Suðurnes

Séra Baldur Rafn: Fjármunir renna allir til samfélagsmála í sókninni

Kirkjuráð og Ríkisendurskoðun rannsaka nú bílastyrki Baldurs Rafns Sigurðssonar en hann fær greiddar rúma eina milljón króna á ári. Þá rannsaka sömu aðilar fjárreiður Líknarsjóðs Ytri-Njarðvíkurkirkju vegna kvörtunar frá Kvennfélagi Njarðvíkur varðandi matarkort fyrir alls tvær milljónir króna, sem félagið gaf líknarsjóði Ytri-Njarðvíkurkirkju, fyrir jólin 2012 og virðist ekki hafa skilað sér til bágstaddra.

Séra Baldur skrifaði opið bréf til sóknarbarna sinna sem birt er á vef héraðsfréttamiðils Víkurfrétta, þar skýrir hann sína hlið mála. Í bréfinu kemur fram að Baldur muni afþakka þær greiðslur sem eru til skoðunar hjá Kirkjuráði.

Þegar ég tók við starfi sóknarprests í Njarðvíkurprestakalli fyrir 24 árum voru mér boðin sambærileg kjör og forvera mínum. Hluti af þeim kjörum voru greiðslur sem ætlað var að mæta hluta af útlögðum kostnað prestsins vegna akstur sem var ekki einsdæmi. Sitt sýnist hverjum um þessar greiðslur og skiptar skoðanir eru um þær innan kirkjunnar. Það er ekki mitt að meta lögmæti þeirra kjara sem mér voru boðin en ég hef nú afþakkað greiðslurnar sem eru til skoðunar hjá Kirkjuráði. Ég mun að sjálfsögðu lúta niðurstöðu ráðsins. Segir í bréfi  Baldurs.

Þá útskýrir Baldur úthlutunarreglur Líknarsjóðs Ytri-Njarðvíkurkirkju og segir meðal annars að þeir fjármunir sem fólk leggur inn á reikning sjóðsins renni allir til samfélagsmála í sókninni og að stefna Líknar- og hjálparsjóðsins sé að stuðla að aukinni velferð barna með því að styrkja fjölskyldur í samfélaginu sem eiga í erfiðleikum.

Séra Baldur fer einnig yfir núverandi stöðu sjóðsins í bréfi sínu til sóknarbarna:

Upphæðin á kortum kvenfélagsins þótti í sumum tilvikum of há og þeim var því skipt út þannig að fyrir hvert kort fengust fjögur kort að verðmæti 5.000 krónum. Kortunum hefur að verið úthlutað til þurfandi í samfélaginu, en kortin eru útgefin af Samkaupum. Þessi góða gjöf kvenfélagsins hefur því komið sér vel og um áramótin voru eftir af gjöfinni kort að verðmæti 270.000 krónur og það sýnir vel hversu þörfin er mikil í samfélaginu okkar. Heildarstaða sjóðsins um síðustu áramót var 502.141 krónur.