Nýjast á Local Suðurnes

Hluti skulda Reykjanesbæjar nú í umsjá ríkisins

Glitnir hefur afhent ríkinu allt stöðugleikaframlag slitabúsins, þar á meðal er eign í Íslandsbanka, sem þar með er að fullu kominn í ríkiseigu, en stór hluti af skuldum Reykjanesbæjar er við Glitni og Íslandsbanka.

Með þessum gjörningi verður ríkið beinn aðili að samningaviðræðum um skuldir sveitarfélagsins, en ríkið hefur hingað til komið óbeint að viðræðunum, þar sem Landsbankinn er einn kröfuhafa.

Samkvæmt svari Fjármála- og efnahagsráðuneytisins við fyrirspurn Fréttablaðsins tekur Seðlabankinn við eignarhlutum sem slitabúin greiða ríkinu. Þá vildi Fjármála- og efnahagsráðuneytið ekki upplýsa um hver aðkoma ríkisins að viðræðum Reykjanesbæjar við kröfuhafa yrði í kjölfar þess að Glitnir og Íslandsbanki eru nú að fullu í ríkiseigu.